Dr. Stephanie S. Covington er viðurkenndur meðferðaraðili, rithöfundur, ráðgjafi stofnana og fyrirtækja, og fyrirlesari á alþjóðavísu. Hún er frumkvöðull á sviði kvennameðferðar við fíknivanda og í samþættingu áfalla- og fíknimeðferðar. Dr. Covington nálgast vandann á nýstárlegan hátt með tilliti til kyns. Meðferðin sem hún hefur þróað er áfallamiðuð og nýtist vel í meðferð kvenna með fíknivanda.
Dr. Covington er aðalfyrirlesari ráðstefnunnar um konur, fíkn, áföll og meðferð, heldur inngangsfyrirlestur og býður upp á þrjár vinnustofur.
Í fyrirlestrum sínum, starfsþróunarnámskeiðum og ráðgjöf leggur hún áherslu á kerfisbreytingar og meðferðarumhverfi sem er kærleiksríkt, samúðarfull og valdeflandi. Fagfólki veitist þannig tækifæri til að öðlast færni til að fást við persónulegar breytingar, breytingar innan stofnana og samfélagsbreytingar. Dr. Covington er eftirsótt til starfa innan og utan Bandaríkjanna, bæði fyrir stofnanir og ríki.
Á meðal þeirra sem dr. Covington hefur starfað fyrir eru Betty Ford-stofnunin, Hanley Center, CeDAR (Center for Dependency, Addiction & Rehabilitation), fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (e. UNODC), the Center for Substance Abuse Treatment í Washington, D.C., Fangelsismálastofnun Kaliforníu, (e. California Department of Corrections and Rehabilitation) og fjöldi annarra meðferðarstofnana og stofnana refsivörslukerfisins. Dr. Covington var formaður vinnuhóps um bætt meðferðarviðmið (e. treatment improvement protocol (TIP)) sem gefin voru út af SAMHSA (sem er undirstofnun Bandaríska heilbrigðisráðuneytisins um vímuefnamisnotkun og geðheilbrigði). Hún var líka þátttakandi í þriggja ára rannsóknarverkefni fyrir bandarísku fangelsismálastofnunina um kynjasamþættingu: Gender-Responsive Strategies: Research, Practice, and Guiding Principles for Women Offenders. Verkefnið hlaut viðurkenningu Cincinnati-háskóla sem einstakt framlag á sviði fangelsismála í Bandaríkjunum og Kanada.
Dr. Covington hlaut menntun sína við Columbia-háskóla og Union Institute og hefur starfað við sálfræðideildir Suður-Kaliforníu-háskóla, Ríkisháskólans í San Diego og California School of Professional Psychology og hún er fyrrverandi formaður kvennanefndar Alþjóðaráðsins um alkóhólisma og fíkn (e. International Council on Alcoholism and Addiction – ICAA). Hún hefur hlotið starfsleyfi stjórnar Samtaka bandarískra félagsráðgjafa (e. National Association of Social Workers) og stjórnar Ameríska kynfræðifélagsins (e. American Board of Sexology) og hún er félagi í Samtökum bandarískra hjónabands- og fjölskylduráðgjafa og Bandaríska sálfræðingafélaginu (e. American Psychological Association). Hún hefur einnig starfað sem ráðgjafi um þjónustu við konur hjá SAMSHA. Þá var hún aðalráðgjafi og meðferðaraðili í þættinum Breaking Down the Bars á sjónvarpsstöðinni Ophra Winfrey Network.
Dr. Covington starfar í La Jolla í Kaliforníu þar sem hún er forstöðukona Stofnunar um þróun persónulegra samskipta, (e. Institute for Relational Development) og Stofnunar um jafnrétti og réttlæti (e. Center for Gender and Justice), sem leitast við að auka kynjasamþættingu í stefnu og þjónustu við konur í umsjón refsivörslukerfisins. Dr. Covington hefur sent frá sér fjölda bóka og greina m.a.:
- Women and Addiction: A Gender-Responsive Approach
- Awakening Your Sexuality: A Guide for Recovering Women
- Leaving the Enchanted Forest: The Path from Relationship Addiction to Intimacy
Hún hefur einnig birt efni um áfallamiðaða meðferð þar sem kynjasjónarmið eru höfð að leiðarljósi. Eftirfarandi listi inniheldur m.a. handbækur fyrir fagfólk og námsefni fyrir þátttakendur:
- Helping Women Recover: A Program for Treating Addiction (ásamt sérstakri útgáfu fyrir refsivörslukerfið)
- Helping Men Recover (meðhöfundur, einnig er til sérstök útgáfa fyrir refsivörslukerfið)
- Beyond Trauma: A Healing Journey for Women
- Voices: A Program of Self-Discovery and Empowerment for Girls
- A Woman’s Way through The Twelve Steps
- Beyond Violence: A Prevention Program for Criminal Justice-Involved Women
- Beyond Anger & Violence: A Program for Women
- Becoming Trauma Informed: A Training Program for Correctional Professionals (sérútgáfur fyrir Bandaríkin, Kanada og Bretland)
Frekari upplýsingar um nýlegar greinar og námskeið fyrir fagfólk er að finna á vefsíðu dr. Covington: www.stephaniecovington.com og www.centerforgenderandjustice.org.