Átak gegn heimilisofbeldi

Skýrslan „Átak gegn heimilisofbeldi – Úttekt á samstarfsverkefni sveitarfélaganna Kópavogs, Hafnarfjarðar og Garðabæjar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn heimilisofbeldi“ er komin út. Úttektin er unnin af RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum – fyrir Kópavog, Hafnarfjörð og Garðabæ. Matið byggir á innleggi þess starfsfólks sem að verkefninu kemur, sjónarmiðum þolenda og sérfræðinga á sviðinu ásamt tölulegum gögnum.

Samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við Kópavogsbæ, Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ um átak gegn heimilisofbeldi hófst hinn 15. maí 2015. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á þeim heimilisofbeldismálum, sem upp koma, í því skyni að tryggja öryggi íbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi.

Í samstarfsyfirlýsingu er kveðið á um að verkefnið verði metið að ári liðnu og var RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum fengin til verksins.  Í matsteyminu voru Kristín A. Hjálmarsdóttir, kynjafræðingur, Guðbjört Guðjónsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, Kristín I. Pálsdóttir, verkefnisstjóri RIKK og Erla Hlín Hjálmarsdóttir, doktorsnemi í stjórnmálafræði og rannsóknastjóri við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Skýrslan er aðgengileg hér.