Nanna Hlín Halldórsdóttir
©Kristinn Ingvarsson

Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktor í heimspeki, er fimmti fyrirlesari í fyrirlestraröð RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum – og UNU-GEST – Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna – á vormisseri 2019. Fyrirlestur hennar nefnist: „Tekurðu D-vítamín? Heilsa, nýfrjálshyggja og einstaklingsvæðing ábyrgðar“ og að venju er fyrirlesturinn fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, fimmtudaginn 7. mars kl. 12:00-13:00.

Flest okkar upplifa flensu og veikindi í hversdagslífinu en hjá sumum okkar dragast þessi veikindi á langinn. Langveikt fólk lifir oft við annað hvort óskilgreind veikindi eða lítt viðurkennda sjúkdóma á borð við ME/síþreytu. Oftar en ekki býr þessi hópur þannig við erfið lífsskilyrði og jafnvel mikla örvæntingu. Þegar erfitt er að staðsetja orsök veikinda út frá skýrt skilgreindum þekkingaramma vísindanna hefur það í för með sér þær félagslegu afleiðingar að langveiku fólki er beint eða óbeint send þau skilaboð að veikindin séu á einhvern hátt þeim sjálfum að kenna. Í þessum fyrirlestri verður spurningin: „Tekurðu D-vítamín?“, sem langveikt fólk fær í tíma og ótíma, tekin sem dæmi um hvernig að hugmyndir um heilsu og ábyrgð fléttast saman innan samfélagskerfis sem dregur (enn) dám af nýfrjálshyggju. Spurningin um ábyrgð myndar grunn siðfræðilegrar orðræðu og þegar hún er einstaklinsvætt er það einstaklingurinn einn sem ber ábyrgð á því hvernig honum farnast, og ekki er tekið tillit til félagslegra, jafnvel ekki líffræðilegra (óþekktra) þátta.

Nanna Hlín Halldórsdóttir lauk BA-prófi í heimspeki við Háskóla Íslands árið 2008 og MA-prófi í heimspeki og gagnrýnum fræðum frá Kingston-háskóla í London árið 2012. Á námstímanum hlaut hún doktorsnemastyrk frá rannsóknarsjóði Rannís m.a. í gegnum verkefnið Feminist Philosophy Transforming Philosophy. Hún hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og víðar meðfram námi.

Nanna Hlín varði doktorsritgerð sína í heimspeki sem nefnist Vulnerable in a Job Interview: Butler’s Relational Ontology of Vulnerability as a Response to (Neo)liberalism, eða Berskjölduð í atvinnuviðtali: Tengslaverufræði Judith Butler sem viðbragð við (ný)frjálshyggju við Háskóla Íslands 28. september 2018.

Fyrirlesturinn er á íslensku og er öllum opinn.

Finndu viðburðinn á Facebook!

Hádegisfyrirlestraröð RIKK og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á vormisseri 2019 er tileinkuð sambandi kyns, áfalla og heilsufars. Rannsóknir á áhrifum skaðlegrar reynslu á bernskuárum hefur á undanförnum árum veitt hugmyndum um áhrif uppvaxtarskilyrða á heilsufar og velferð á fullorðinsárum nýtt líf. Fyrirlesarar úr mismunandi greinum munu í fyrirlestraröðinni fjalla um viðfangsefnið út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestraröðin er haldin í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Hér má sjá upptöku af fyrirlestrinum.

https://www.youtube.com/watch?v=LbVEjKmptPw&feature=youtu.be